25.6.2013 20:40

Þriðjudagur 25. 06. 13

Við Place des Voges í París stendur íbúð þar sem Victor Hugo (1802-1885) bjó um tíma. Þar er nú safn helgað honum og að þessu sinni er þar kynntur stjórnmálamaðurinn Hugo. Var fróðlegt að ganga um og kynnast hve einarður hann var í baráttunni fyrir stjórnmálaskoðunum sínum. Hann var útlægur frá Frakklandi í 19 ár, flúði til Belgíu en bjó lengst á eyjunni Jersey. Hann barðist gegn dauðarefsingu og fyrir lýðveldi í Frakklandi. Þegar hann var jarðsunginn fylgdi honum ein milljón manna, líkamsleifar hans hvíla í Panthéon, við hlið fleiri franskra stórmenna. Hann er nú kunnastur fyrir Vesalinganna af því að þeim hefur verið breytt í söngleik.

Edward Snowden flaug frá Hong Kong til Moskvu með Aeroflot sunnudaginn 23. júní. Ólafur Vignir Sigurvinsson skýrir frá því þriðjudaginn 25. júní að hann hafi að morgni þess þriðjudags afpantað þrjár einkaþotur sem hann hafði til taks í Hong Kong til að flytja Snowden þaðan. Við hvað á að kenna þessa varkárni í þágu skjólastæðings síns?

Fréttastofa ríkisútvarpsins segir að The New York Times (NYT) segi að FBI hafi sent fulltrúa til Íslands sumarið 2011 vegna WikiLeaks. NYT hefur þetta eftir Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra, sem lét þess ekki getið við blaðið að hvorki ríkissaksóknari né ríkislögreglustjóri hefðu verið sammála mati ráðherrans.