24.6.2013 21:15

Mánudagur 24. 06. 13

Við gengum á friðsamri götu í París, á vinstri bakkanum, fyrir aftan akademíuna þegar lögreglumaður hrópaði á karlmann sem gekk fram hjá okkur og gaf honum fyrirmæli um að fylgja sér. Maðurinn átti sér einskis ills von, ferðamaður eins og við, og sagði við lögregluna að þarna hlyti að vera um misskilning að ræða, hann hefði ekki gert neitt af sér. Lögreglumaðurinn hélt nú ekki og hvessti sig með þungum fyrirmælum. Maðurinn lét segjast og elti lögreglumanninn en aðeins í fáeinar sekúndur þá veifaði lögreglumaðurinn hendi og gaf manninum leyfi til að halda sína leið sem hann gerði léttari á brún. Lögreglubíll ók á brott.

Þetta litla atvik situr í huganum til marks um hve varnarlaus einstaklingur getur verið sé ekki komið fram við hann af þeirri virðingu sem ber af þeim sem fer með vald til handtöku. Hefði ekki verið eðlilegt að lögreglumaðurinn ræddi við viðkomandi og segði honum hvers vegna hann skipaði honum að fylgja sér? Næsta skref við hina hvössu skipan var greinilega að setja manninn í járn.