21.6.2013 20:25

Föstudagur 21. 06. 13

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, komst í fréttir 19. júní þegar hann hafði setið eitt ár í sendiráði Ekvador í London með því að beina athygli að uppljóstraranum Edward Snowden og áhuga WikiLeaks á að koma honum til Íslands. Síðan lét Ólafur Vignir Sigurvinsson, fyrrv. forstjóri DataCell, hafa eftir sér að hann hefði til taks einkaþotu í Kína til að fljúga Snowden til Íslands. Kristinn Hrafnsson, upplýsingafulltrúi WikiLeaks, segist hafa reynt að ná tali af íslenskum ráðherrum til að greiða götu Snowdens.

Enginn þessara manna hefur verið í beinu sambandi við Snowden. Ekki er vitað hvort um óbeðinn erindrekstur sé að ræða. Snowden nefndi Ísland í fyrsta samtalinu við The Guardian sem griðastað fyrir þá sem vilja frelsi í netheimum. Hann hefur síðar sagt að hann ætli að berjast fyrir rétti sínum, óski bandarísk stjórnvöld eftir framsali hans, frá Kína.

Hvað sem öðru líður tókst Assange og WikiLeaks að vekja athygli á sér með því að flagga Snowden og Íslandi. Almennt séð er ekki unnt að telja þetta spennandi félagsskap. Íslandi er enginn greiði gerður með því að teljast eiga aðild að honum.