19.6.2013 22:30

Miðvikudagur 19. 06. 13

Á ÍNN má nú í kvöld og fram til 18.00 á morgun á tveggja tíma fresti sjá samtal mitt við Tómas Guðbjartsson, pófessor og hjarta- og lungnaskurðlækni, um störf hans sem læknis og stöðu læknisfræðinnar.

Í kvöld voru Valkyrjurnar eftir Richard Wagner sýndar í Bastillu-óperunni í París við engu minni hrifningu en í gærkvöldi þegar Rínargullið var sýnt. Hringur Niflungans er því hálfnaður í uppfærslu Bastillu-óperunnar í tilefni af 200 ára afmæli Wagners sem fæddist 22. maí 1813.

Í tilefni af ferðinni hingað til að horfa á Hringinn las ég bókina Athena Sings – Wagner and the Greeks, eftir M. Owen Lee, kaþólskan prest og prófessor emeritus í klassískum fræðum við háskólann í Toronto. Ég segi hið sama og einn lesandi bókarinnar á kápu hennar að ég hlusta og horfi á annan hátt á óperur Wagners eftir að hafa lesið þessa hnitmiðuðu bók.

Grísku harmleikirnir snerust um gríska guði. Wagner notar form þeirra til að semja harmleik um norræn goð. Óðinn, Frigg og Freyja auk Loka eru allt persónur sem við Íslendingar þekkjum. Owen tekur sérstaklega fram að Brynhildur sé íslensk en hún er dóttir Óðins og forystukona Valkyrjanna sem færa látna stríðsmenn til Valhallar og vekja þá þar til lífs að nýju. Þungamiðja Valkyrjanna er að Brynhildur óhlýðnast föður sínum og drepur ekki Sigmund, hálfbróður sinn. Vegna þessa snýr Óðinn baki við Brynhildi og leggur á hana að hún muni sofa í vafurloga þar til hugrakkur og frjáls maður játi henni ást og bjargi henni.

Í grísku harmleikjunum eru almennt tvær persónur eða í mesta lagi þrjár á sviðinu í einu og ræða saman en kórinn boðar áheyrendum það sem gerist eða er í vændum. Í Hringnum leiða ofast tvær stundum þrjár persónur saman hesta sína á sviðinu en hljómsveitin segir söguna með stefjunum, leitmotífs, sem Wagner tileinkar persónum eða hlutum.