15.6.2013 23:55

Laugardagur 15. 06. 13

Í dag lýsti ég undrun minni á tveimur málum í pistlum á Evrópuvaktinni annars vegar á fullyrðingum Þorsteins Pálssonar um fullveldisskerðingu alþingis í ESB-málinu og hins vegar á útleggingu fréttastofu ríkisútvarpsins á blaðamannafundi Gunnars Braga Sveinssonar og Ŝtefan Füles í Brussel. Þakkarvert er að fréttastofa ríkisútvarpsins hafi ekki fréttamann að staðaldri í Brussel.

Augljóst er að ESB-aðildarsinnar leggja sig alla fram um að gera stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu sem tortryggilegasta. Talið er þó jafn innantómt og endranær þegar því er haldið að þjóðinni að hún verði sett út af sakramentinu fyrir að móta sér skoðun í ESB-málum sem fellur ekki að aðildarstefnunni. Þetta er alrangt.

Mesta undrun vekur innan ESB að ríkisstjórn Íslands hafi sótt um aðild 2009 í óþökk meirihluta þjóðarinnar. Í Brussel skilja menn ekki heldur inntak þeirrar stefnu að mestu skipti að ljúka ESB-viðræðum með einhvers konar niðurstöðu svo að hana megi fella í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér á landi hefur dvalist Dani frá Brussel til að segja íslenskum áheyrendum hve sjávarútvegsstefna ESB sé að verða góð að norskri og íslenskri fyrirmynd. Færeyingar og Grænlendingar eru í ríkjasambandi við Danmörku. Grænlendingar sögðu sig úr ESB 1985 vegna skilningsleysis innan sambandsins á hagsmunum þeirra meðal annars í sjávarútvegsmálum. Engum færeyskum stjórnmálaflokki dettur í hug að setja ESB-aðild á dagskrá sína, það jafngilti pólitískum dauðadómi.