12.6.2013 21:40

Miðvikudagur 12. 06. 13

Í franska blaðinu Le Monde er í dag heilsíðugrein um Ísland í tilefni af ummælum Edwards Snowdens uppljóstrara um að hann geti vel hugsað sér að sækja um hæli undan bandarískri réttvísi á Íslandi. Hér má lesa lauslega þýðingu Evrópuvaktarinnar á þessari grein.

Það sem kemur á óvart er að menn skuli líta þannig á að IMMI, áform um að breyta Íslandi í net-griðastað af einhverju tagi, veiti einhverjum skjól. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem samþykkt var einróma. Það er ekki gæðastimpill og tryggir ekki að henni verði hrundið í framkvæmd.

Við blasir af greininni í Le Monde að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, notar athyglina sem orð Edwards Snowends hafa beint að Íslandi til áróðurs fyrir sjálfa sig og IMMI en þó skín í gegn að ekki er þar um neitt að ræða sem vekur sérstaka hylli meðal Íslendinga. Birgitta talar um IMMI sem varanlegt viðfangsefni af því að alþingi hafi samþykkt ályktunina um árið. Hún ætti að kynna sér örlög allra þjóðþrifamálanna sem ályktað hefur verið um á alþingi.

Almennt og án tillits til þess sem Edward Snowden sagði eru tengslin við Julian Assange, afskipti hans og annarra WikiLeaks-manna af IMMI-ályktuninni og framganga Birgittu Jónsdóttur frekar óskemmtileg landkynning.