11.6.2013 22:30

Þriðjudagur 11. 06. 13

Þeir sem minnast umræðna sumarið 2009 um aðildarumsókn að ESB muna væntanlega hneykslan Össurar Skarphéðinssonar á þeirri tillögu að þjóðin yrði spurð álits á málinu, það yrði lagt í hennar dóm í atkvæðagreiðslu hvort sækja ætti um aðild. Þetta taldi Össur hina mestu goðgá. Honum mundi á skömmum tíma takast að skjóta Íslandi inn í ESB. Það mætti engan tíma missa, þjóðin yrði spurð að leikslokum.

Allar spár Össurar um framvindu ESB-málsins hafa reynst rangar. Hann skilur við málið verra en hálfkarað þegar hann sest í stjórnarandstöðu eftir „hamfarir“ eigin flokks í þingkosningunum þar sem ESB-aðildin var helsta bjargráðið í kosningaloforðunum.

Nú bregður svo við að Guðmundur Steingrímsson í Litlu-Samfylkingunni og Össur á höfuðbólinu keppa á þingi um hvor verði fyrri til að flytja tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðnanna – tillögu um sama efni og Össur taldi fráleita fyrir fjórum árum. Uppgjöf Össurar er með öðrum orðum algjört í þessu máli. Nú rökstyður hann tillögu sína á þennan hátt:

„Því telja flutningsmenn þingsályktunartillögunnar að það þjóni óskráðri friðarreglu þingsins og sé því farsælt fyrir vellíðan og hagsmuni þjóðarinnar að þing og ríkisstjórn sammælist um að eyða þessari óvissu [í ESB-málinu] sem fyrst. Farsælast sé því fyrir alla að útkljá deiluna um framhald viðræðnanna með þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verði við fyrstu hentugleika.“

Össur og Samfylkingin höfðu ekki „vellíðan og hagsmuni þjóðarinnar“ að leiðarljósi í fjögur ár hvorki í ESB-málinu né öðrum stórmálum. Besta pólitíska úrræðið til að bæta vellíðan þjóðarinnar og gæta hagsmuna hennar var að losna við Samfylkinguna úr ríkisstjórn.