10.6.2013 23:10

Mánudagur 10. 06. 13

Edward Snowden sem lak upplýsingum um aðgang bandarískra njósnastofnana að netþjónum bandarískra stórfyrirtækja leitaði til Hong Kong áður en hann upplýsti um hlut sinn að málinu. Fjölmiðlamenn víða um heim furða sig á staðaravalinu vilji hann ekki verða framseldur til Bandaríkjanna. Það kunni að vísu að taka langan tíma að ljúka öllum formsatriðum í Hong Kong en þaðan séu menn framseldir til Bandaríkjanna sé þess óskað af yfirvöldum þar og öllum skilyrðum sé fullnægt.

Í sjónvarpsviðtali sem blaðamenn The Guardian tóku við Snowden í hóteli í Hong Kong sagðist hann íhuga að sækja um hæli á Íslandi vegna sögu landsins við að verja frelsi á Internetinu. Líklega vísar hann hér til frásagna í bókum um Julian Assange hjá Wikileaks og dvöl hans og félaga á Íslandi með Birgittu Jónsdóttur og fleirum við smíði þingsályktunartillögu, IMMI-tillögunnar svonefndu, sem var samþykkt einróma á þingi en er síðan lítið annað en orð á blaði þótt til hafi orðið hópur fólks í kringum hana sem bauð fram undir merkjum Pírata og fékk þrjá menn kjörna á þing 27. apríl sl.

Óljóst er hvað Bandaríkjastjórn ætlar að gera í máli Snowdens, upplýst hefur verið hver lak sem léttir á spennu í málinu. Birgitta Jónsdóttir alþingismaður lét lengi eins og hún yrði handtekin eða gæti að minnsta kosti ekki um frjálst höfuð strokið færi hún til Bandaríkjanna. Þetta reyndist allt ímyndun og í dag var talað við hana frá San Fransisco og hún spurð um Snowden.

Þeir sem kunna að vera í sambandi við Snowden héðan verða að útskýra fyrir honum að hann á ekkert erindi til Íslands vilji hann fá skjól vegna sérstakra laga um Internetið og frelsi í sambandi við það. Engin slík lög hafa verið sett þótt einhverjir láti greinilega í annað skína miðað við misskilninginn víða um lönd.

Á sínum tíma hitti ég Pírata í Þýskalandi sem höfðu komið hingað til lands til að kynnast hinum nýju IMMI-lögum en gripu í tómt af því að ekkert frumvarp hafði verið samið, þeim þótti ekki líklegt að hér yrði nokkurn tíma gengið til þess að samþykkja slík lög þar sem enginn virtist hafa á því áhuga eða getu,