9.6.2013 23:00

Sunnudagur 09. 06. 13

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson kallaði Sigmund Davíð Gunnlagsson, verðandi forsætisráðherra, á sinn fund í þann mund sem stjórnarmyndun lauk var spurt hér í dagbókinni: Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?

Nú um helgina er helsta pólítíska fréttin að Sigmundur Davíð segi ESB-málið „fullveldismál“ og þess vegna sé ekki athugavert að Ólafur Ragnar hafi rætt það við þingsetningu þótt forseti Íslands eigi ekki að skipta sér af utanríkismálum. Spurning er hvort Ólafur Ragnar hafi komið þeirri hugmynd að hjá verðandi forsætisráðherra þegar þeir hittust miðvikudaginn 22. maí á Bessastöðum að í stjórnskipun landsins sé einskonar „grátt svæði“ þar sem forsetinn geti sagt meira en ella um stjórnmál og álitamál.

Kenningasmíði af þessu tagi er ekki fjarri Ólafi Ragnari og næsta skref kann að verða að Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, komi í Spegilinn hjá fréttastofu ríkisútvarpsins og útlisti þetta allt Ólafi Ragnari í hag svo að hann geti enn lagt net sín á ný mið.

Sætti ríkisstjórn og alþingi sig við að forseti Íslands færi út vald sitt á þennan hátt hlýtur að reyna á það fyrir þriðja armi ríkisvaldsins, dómsvaldinu, hvar embættismörkin eru með vísan til stjórnarskrárinnar. Spurning er hvernig hanna eigi atburðarás til að unnt sé að láta á valdmörkin reyna fyrir dómstóli.

Rætt er um nauðsyn þess að koma á fór millidómstigi meðal annars til að létta málum af hæstarétti. Þörfin fyrir stjórnlagadómstól vex í réttu hlutfalli við óvissu um valdmörk á æðstu stöðum sem nú þegar kallar á ný hugtök til að sníða umgjörð um afskipti forseta Íslands af stjórnmálum.