7.6.2013 23:10

Föstudagur 07. 06. 13

Í dag var sagt frá samkomulagi sem gert hefði verið um leigu á tveimur björgunarþyrlum til fjögurra ára. Landhelgisgæslan gerði samninginn að fenginni heimild Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Í tilkynningu ráðuneytisins segir:

„Með leigusamningnum hefur verið eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur í þyrlubjörgunarmálum Landhelgisgæslunnar. Í framhaldi af þessari niðurstöðu mun ráðherranefnd um ríkisfjármál taka ákvörðun um tímasetningu útboðs vegna kaupa á langdrægum björgunarþyrlum sem framtíðarlausn í þyrlubjörgunarmálum þjóðarinnar.“ 

Á sínum tíma hafði verið tekin ákvörðun um leið til að kaupa nýjar björgunarþyrlur í samvinnu við Norðmenn. Horfið var frá henni eftir hrun og í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir var stofnað til óvissu um þetta mikilvæga mál eins og svo mörg önnur. Henni hefur nú verið eytt rætist það sem segir í tilkynningu innanríkisráðuneytisins.

Þarna er því sagt frá mikilvægu skrefi í öryggismálum þjóðarinnar sem fær minna rými í fréttum en frásagnir af viðhaldi á þyrlum gæslunnar eða skortur á þeim.