6.6.2013 23:40

Fimmtudagur 06. 06. 13

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gekk lengra en nokkru sinni fyrr inn á hinn pólitíska völl við setningu alþingis í dag. Hann sagði augljóst að hann hefði haft rétt fyrir sér í stjórnarskrármálinu, lýðveldisstjórnarskráin hefði staðist áraun hrunsins og óþarft væri að taka upp nýja stjórnarskrá vegna þess. Þá áréttaði hann skýrar en hann hefur áður gert andstöðu sína við aðild Íslands að ESB og sagði samtöl við evrópska áhrifamenn auk þess hafa sannfært sig um að innan ESB væri hvorki vilji né geta til að ljúka aðildarviðræðunum við okkur.

Ég hef aldrei viðurkennt rétt forseta Íslands til að ganga inn á hinn pólitíska völl, hvorki með pólitískum yfirlýsingum eða á annan hátt. Þar fyrir utan er ég sjaldan sammála pólitískum yfirlýsingum hans, ég er það þó að þessu sinni.

Aðförin að lýðveldisstjórnarskránni var hneyksli. Í ESB-málinu lýsir Ólafur Ragnar skoðun sem fellur að því sem ég hef sagt, einkum á Evrópuvaktinni, að innan  ESB vilji menn ekki fá nei frá Íslendingum og því dragi ESB viðræðurnar á langinn, þá vill ESB ekki gefa neitt eftir í sjávarútvegsmálum og þess vegna hefur framkvæmdastjórnin sett málið í salt.

Taki ríkisstjórn Sigmundar Davíðs ekki af skarið í ESB-málinu í anda ræðu Ólafs Ragnars bíður hennar meiri pólitískur vandi en skapast af því að stöðva viðræðurnar og hafna öllum fagurgala og fjárgjöfum frá ESB.

Ók í dag gömlu leiðina um Hvalfjörð og yfir Dragháls að Hraunfossum og Barnafossi þar sem hitinn var um 18 gráður. Áði í Reykholti og tveir gestir mínir frá Þýskalandi kynntust Snorra Sturlusyni og þáttum úr Íslandssögunni undir leiðsögn séra Geirs Waage. Hvarvetna var aðstaða til móttöku ferðamanna prýðileg og var nokkur fjöldi þeirra við fossana, í Reykholti og við Deildartunguhver.