3.6.2013 22:55

Mánudagur 03. 06. 13

Í dönsku sjónvarpsstöðinni DR2 mátti í kvöld sjá þátt í heimildamyndaröð sem Arte og fleiri sjónvarpsstöðvar standa að og snýst um Kína og þróun þjóðlífsins þar frá örbirgð til auðlegðar. Þar sagði einn kínverskra viðmælenda að í landinu ríkti nú „markaðs-lenínismi“. Lýsir það stjórnarháttunum vel: markaðurinn kemur í staðinn fyrir Marx en stjórnskipulagið er reist á kenningu Leníns.

Deng Xiaoping arftaki Maós gaf fyrirmæli um að fólk ætti að stefna að því að verða ríkt. Stefnunni var hrundið í framkvæmd á hinn skipulega hátt sem við höfum séð síðustu 30 ár. Kínverskt þjóðfélag hefur tekið algjörum stakkaskiptum undir stjórn flokks 80 milljón manna í 1300 milljón manna samfélagi. Æðsta stjórn er í höndum níu manna stjórnmálaráðs sem endurnýjast á 10 ára fresti eftir leynilegum leiðum.

Í fréttum dagsins var sagt að menn hefðu áhyggjur af efnahagsástandinu í Kína. Þar væri vöxtur ekki nógu mikill, ekki „nema“ 7 til 8% í ár en hann hefur verið 9,22% að meðaltali frá 1989 til 2013. Þegar fréttamenn BBC ræddu þetta í morgun hlógu þeir af því að þetta væri kallaður efnahagsvandi og minntust fréttanna af evru-svæðinu þar sem vöxtur hangir í 0% eða í Bretlandi þar sem talið er að hagvöxtur verði 0,3% í ár.

Tæki sig einhver til hér á landi núna, færi að fordæmi Dengs og hvetti fólk til að setja sér að markmiði að græða og safna fé til að styrkja samfélagið og njóta lífsins gæða yrði sá hinn sami líklega úthrópaður sem óvinur haldinn illum 2007-anda. Deng áttaði sig á að í þjóðfélagi þar sem enginn er hvattur til dáða eru engin afrek unnin og ekkert gerist.