2.6.2013 23:30

Sunnudagur 02. 06. 13

Klukkan 10.00 í morgun hófu félagar í Atrium kvartettinum að flytja 15 strengjakvartetta eftir rússneska tónskáldið Dmitri Sjostakovitsj í Norðurljósum í Hörpu og luku þeir flutningnum klukkan 21.52, nákvæmalega á þeim tíma sem boðað var í dagskránni. Gert var hádegis- og kvöldverðarhlé í um klukkustund í hvort skipti og auk þess voru fáein styttri hlé. Kvartettinum var fagnað innilega að loknu þessu afreki, andlegu, líkamlegu og listrænu. Hljóðfæraleikararnir eru allir rússneskir, fæddir 1978 og 1979.

Nokkur hópur áheyrenda fylgdist með tónleikunum allan daginn. Ég hlustaði frá 15.40 og hreifst af áræði og færni hljóðfæraleikaranna. Viti ég rétt er þetta í fyrsta sinn sem kvartettinn tekst á við þessi mögnuðu verk, öll á einum degi á tónleikum. Þau hafa leikið alla kvartettana inn á hljómdiska og búa sig undir að endurtaka heildarflutninginn annars staðar en á Listahátíð í Reykjavík, hafi þau staðist áraunina hér að eigin mati.

Áheyrendur voru dolfallnir yfir að hafa fengið þetta tækifæri til að njóta frábærrar tónlistar Sjostakovitsj á þennan einstæða hátt.