21.11.2012 21:40

Miðvikudagur 21. 11. 12

Ræddi í dag við Hafstein Þór Hauksson, lektor í lagadeild Háskóla Íslands, um stjórnarskrármálið í þætti mínum á ÍNN. Hann sat í sérfræðinganefndinni sem skipuð var að tilhlutan stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis til að skoða tillögur stjórnlagaráðs.

Því meira sem menn rýna í þetta stjórnarskrármál hljóta þeir að sjá hve fráleitt er að það verði afgreitt með nokkru viti á fjórum mánuðum fram að þingkosningum. Spurningarnar sem ekki hefur verið svarað eru svo margar að það er skiljanlegt að þeir sem vilja hespa af nýrri stjórnarskrá forðist að velta þeim fyrir sér. Aðrir hafa hins vegar gert það eins og sérfræðinganefndin.

Það er ábyrgðarleysi að láta eins og athugasemdir sérfræðinganna snerti aðeins lagatæknileg atriði. Miklu meira er í húfi en látið er í veðri vaka með því að nota orðið „lagatækni“ eins og um jafnvel léttvæga hluti sé að ræða. Þetta blasir við öllum sem hlusta á Hafstein Þór í þætti mínum. Hann er sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.