20.11.2012 22:55

Þriðjudagur 20. 11. 12

Þegar lagt var á ráðin um kröfur til hljómburðar í tónleikasalnum sem nú heitir Eldborg í Hörpu leitaði ég til Vladimirs Ashkenazys og ræddum við málið í hádegisverði í Lækjarbrekku. Ég spurði hann ráða vegna þess hve víða hann hafði komið fram. Við þekktumst frá því snemma á áttunda áratugnum þegar ég vann að því með Matthíasi Johannessen og fleirum að fá leyfi fyrir föður Ashkenazys til að ferðast frá Sovétríkjunum og heimsækja son sinn og fjölskyldu hans hér á landi. Það gekk eftir og minnist ég kvöldverðar með foreldrum Ashkenazys á heimili þeirra Þórunnar og Vladimirs við Brekkugerði.

Þegar við ræddum hljómburðinn um miðjan 10. áratuginn benti Ashkenazy á hljómburðarsérfræðinga hjá fyrirtækinu Arctec í New York og sali sem þeir hefðu hannað meðal annars í Birmingham þar sem Simon Rattle var þá aðalstjórnandi. Haft var samband við Arctec og þeir höfðu áhuga á verkefninu og fylgdu tónlistarhúsinu  þar til það reis. Aldrei var slegið af kröfunni um hinn besta hljómburð. 

Nú í kvöld kom Sir Simon Rattle og stjórnaði Berliner Philharmoniker, einni af þremur bestu hljómsveitum heims, í Eldborg af því að hann vildi fá tækifæri til að kynnast hljómburði salarins, hann hefði heyrt mikið af honum látið. Þegar þetta er skrifað hefur Sir Simon Rattle ekki sagt neitt opinberlega um hvernig honum þótti að stjórna í Eldborg. Hann stjórnaði hins vegar frábærlega hinni margfrægðu og rómuðu hljómsveit. Hún stóð vissulega undir væntingum.