18.11.2012 22:00

Sunnudagur 18. 11. 12

Ánægjulegt er að þáttaröðin  Downton Abbey skuli hafa verið tekin til sýningar að nýju hjá ríkisútvarpinu. Þættirnir eru á dagskrá alls staðar í nágrannalöndunum. Það þykir BBC ekki til framdráttar að einkastöðin ITV sýni þættina í Bretlandi (fyrst í september 2010) en í Bandaríkjunum sýnir PBS sjónvarpsstöðin þá (fyrst í janúar 2011). Þriðja þáttaröðin hófst í ITV  16. september í ár. Sýningar á henni hefjast í PBS í Bandaríkjunum 6. janúar 2013.

Fréttir bárust um að Michelle Obama, forsetafrú í Bandaríkjunum, væri svo einlægur aðdáandi þáttanna að hún gæti ekki beðið eftir þeim þar til í janúar og hefði því fengið þá frá ITV á mynddiskum. Varð orðið við ósk hennar með því skilyrði að hún upplýsti engan um lyktir þáttanna. Þegar David Cameron, forsætisráðherra Breta, sat kvöldverðarboð í Hvíta húsinu í mars á þessu ári staðfesti Barack Obama ánægju sína með Downton Abbey með því að bjóða leikurunum Hugh Bonneville og Elizabeth McGovern – jarlinum og konu hans – til veislunnar.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur í dag boðað að Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra,  sé líklegur formannsframbjóðandi í Samfylkingunni. Þegar fréttastofan tekur stjórnmálamann í Samfylkingunni upp á arma sína á þennan hátt býr mikið að baki. Augljóst er að í Efstaleitinu líst mönnum ekki á Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem formannsefni gegn Árna Páli Árnasyni.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur ekki leitað álits áfallafræðings á 38% fylgi Össurar Skarphéðinssonar í flokksvali Samylkingarinnar í Reykjavík. Áfalla- og skrímslafræðingur fréttastofunnar, Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, úrskurðaði að réttmætt hefði verið hjá fréttastofunni að úrskurða sem áfall fyrir Bjarna Benediktsson að fá 54% atkvæða í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi.