11.11.2012 18:20

Sunnudagur 11. 11. 12

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um prófkjör sjálfstæðismanna í suðvesturkjördæmi.

Í gær sagði ég hér á síðunni að Jóhönnuarmurinn í Samfylkingunni hefði tapað í prófkjöri flokksins í suðvesturkjördæmi þar sem Árni Páll Árnason sigraði Katrínu Júlíusdóttur fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Á mbl.is í dag segir:

„Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra segist ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort hún muni bjóða sig fram til formanns í Samfylkingunni. Hún hafi hins vegar verið hvött til þess að íhuga það bæði í aðdraganda og eftir prófkjörið í gær þar sem Katrín beið lægri hlut fyrir Árna Páli Árnasyni í slag um 1. sæti í SV-kjördæmi. […]

 „Það hefur verið gert, bæði í aðdraganda prófkjörsins og eftir það. En á þessari stundu finnst mér ekki tímabært að taka þessa ákvörðun. Öll prófkjörin þurfa að klárast og þegar úrslitin liggja fyrir úr þeim, þá er fyrst tímabært að skoða stöðuna,“ segir Katrín.“

Hafi Katrín gefið formennskuframboði áður undir fótinn á þennan hátt hefur það farið fram hjá mér. Hefði hún talað svona skýrt fyrir prófkjörið hefði niðurstaðan kannski orðið önnur. Hvers vegna talaði Katrín ekki svona skýrt fyrir prófkjörið? Ástæðan er vafalaust sú að stuðningsmenn hennar hafa talið líklegt að Árni Páll hefði betur og því ekki viljað gera prófkjörið að augljósri baráttu milli tveggja formannsefna. Nú á að bíða eftir niðurstöðunni annars staðar.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor og ráðgjafi Jóhönnu Sigurðardóttur, var í kvöld kallaður til af fréttastofu ríkisútvarpsins til að leggja mat á hvort úrslit prófkjörs sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi hefðu verið „áfall“ fyrir Bjarna Benediktsson. Þar sem Bjarni tók ekki undir þá skoðun fréttamanns ríkisins í hádegisfréttum að hann hefði orðið fyrir „áfalli“ kallaði fréttastofan í áfalla- og skrímslafræðing sinn, Gunnar Helga. Hann taldi Bjarna hafa orðið fyrir áfalli og minnti á skrímslið í Hádegismóum sem gerði formanni Sjálfstæðisflokksins lífið leitt.