10.11.2012 23:50

Laugardagur 10. 11. 12

Stóru tíðindin í stjórnmálunum á fyrsta degi prófkjörs og forvals vegna þingkosninganna vorið 2013 eru að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir kemst í væntanlegan þingflokk sjálfstæðismanna í 4. sæti í suðvesturkjördæmi, Elín Hirst stendur í dyragættinni og hugsanlega Óli Björn Kárason. Það fer eftir sóknarhug í komandi kosningabaráttu hvort sex sjálfstæðismenn verða fulltrúar þessa stóra kjördæmis.

Sigmundur Ernir fær skell hjá Samfylkingunni í norðausturkjördæmi og verður ekki á þingi fyrir hana. Kannski gerist hann pólitískur flóttamaður og eygir bjarta framtíð annars staðar. Erna Indriðadóttir er spútnik hjá Samfylkingunni á Austfjörðum og sest í annað sæti listans.

Árni Páll Árnason hlýtur 1. sæti Samfylkingar í suðvesturkjördæmi. Hann sigrar Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra, fulltrúa Jóhönnu-arms Samfylkingarinnar sem vill ekki samstarf nema til vinstri. Ætli þessi armur að halda völdum innan Samfylkingarinnar verður hann að finna öflugan frambjóðanda á móti Árna Páli í væntanlegum formannsslag.

Mikið fjölmenni var á kosningaskrifstofu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í dag þegar hún var opnuð. Er greinilega mikill hugur í sjálfstæðismönnum í Reykjavík að veita henni öflugan stuðning.