9.11.2012 21:40

Föstudagur 09. 11. 12

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), skóf ekki utan af hlutunum á blaðamannafundi í morgun þegar hann kynnti nýja skýrslu SA um skattamál á blaðamannafundi. Hann sagði um stefnu ríkisstjórnarinnar:

 „Margar breytingarnar [sem ríkisstjórnin hefur gert] eru þess efnis að þær eru að breyta landafræðinni í huga erlendra fjárfesta. Ísland er ekki lengur hluti af Evrópu þar sem treysta má á orð manna og stöðugleika í starfsskilyrðum, Ísland er orðið nyrsta Afríkuríkið. Um þetta er talað meðal erlendra fjárfesta og þetta er staður sem við viljum ekki vera á.“

Þetta kemur heim og saman við greiningu á þjóðum sem lenda í greipum á ábyrgðarlausum vinstristjórnum á borð við stjórn Jóhönnu og Steingríms J. Orð Vilhjálms stangast á við öll fögru orð ríkisstjórnarinnar um hve allt gangi þjóðinni í hag.

Óhætt er að fullyrða að meira mark sé tekið á Vilhjálmi þegar hann lýsir ástandinu hér en Jóhanni Haukssyni, upplýsingafulltrúa Jóhönnu og Steingríms J. Lesi útlendingar það sem Jóhann hefur fram að færa við upplýsingamiðlun í blöðum eða á netinu sannfærast þeir endanlega um að lýsing Vilhjálms sé rétt. Skrif Jóhanns eru í anda blaðafulltrúa óhæfra ríkisstjórna  og því eitt sjúkdómseinkennanna.