8.11.2012 22:50

Fimmtudagur 08. 11. 12

Hér má sjá nýjasta þátt minn á ÍNN viðtal við Ingibjörgu Jónsdóttur, dósent í landafræði við Háskóla Íslands, sem fór með kínverska ísbrjótnum Snædrekanum um Norður-Íshaf til Kína í ágúst og september.

Augljósara dæmi um auglýsingamennsku í krafti opinberra embætta er varla unnt að hugsa sér en blaðamannafundinn í morgun þar sem varaformenn stjórnarflokkanna sátu með Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og kynntu einhverja loftkastala um fjárfestingu á næstu þremur árum (ríkisstjórnin á eftir að lifa í sex mánuði).

Þessi misnotkun á opinberri aðstöðu til að bæta stöðu Katrínar Júlíusdóttur í prófkjörsbaráttu við Árna Pál Árnason er til marks um mikla afturför í stjórnmálastarfi og stangast á við allar heitstrengingar stjórnarflokkanna um bætt siðferði og meiri virðingu fyrir meðferð á opinberu fé.

Ný kynslóð stjórnmálamanna birtist þarna og tíundar verkefni sem eru óumdeild í sjálfu sér en þeir lofuðu upp í ermina á öðrum. Ómerkilegri pólitískan leik er ekki unnt að leika. Að þetta skuli talið gott og gilt er til marks um pólitíska hnignun ef ekki lýðskrum.

Hið sama gerist eftir þingkosningar hér og birtist eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum að menn munu standa frammi fyrir miklu meiri vanda við rekstur þjóðarbúsins en almennt er viðurkennt í stjórnmálaumræðum líðandi stundar. Í Bandaríkjunum ræða menn nú um „fiscal cliff“, hrikalegan fjárlagavanda sem er óviðráðanlegur nema báðir flokkar taki höndum saman. Obama ræður ekki við vandann einn.

Ríkisstjórn að loknum kosningum á Íslandi mun sitja uppi með yfirlýsingar Katrínar Júlíusdóttur og varaformannanna án þess að vera skuldbundin af þeim. Þetta eru í raun innan tóm orð sem taka ekkert mið af raunverulegri stöðu þjóðarbús sem skuldar um 1600 milljarða, 100% af vergri landsframleiðslu og þar sem allar áætlanir um þróun skuldamála hafa farið úr böndum.