6.11.2012 21:00

Þriðjudagur 06. 11. 12

Þegar ég datt inn í Kastljós kvöldsins hélt ég að gestir Sigmars Guðmundssonar væru að ræða einhver tölvuvandamál en heyrði svo að umræðurnar áttu að snúast um bandarísku forsetakosningarnar. Afdalahátturinn í umræðum í ríkisútvarpinu um bandarísk stjórnmál tekur á sig ýmsar myndir. Það er fagnaðarefni að eiga aðgang að fjölmörgum erlendum stöðvum.

Kosningarnar í Bandaríkjunum eru spennandi. Matið á úrslitum ræðst af skoðun þess sem spáir. Tölur í könnunum sýna svo lítinn mun. Sú staðreynd sýnir að Mitt Romney hefur unnið kosningabaráttuna. Hvort sá sigur dugar til að hann sigri í sjálfum kosningunum er óljóst.

Þegar andstaða er jafnmikil við frambjóðanda og hér á landi þar sem könnun sýndi að 98% vilja Obama áfram sem forseta er borin von að andstæðingur hans njóti sannmælis. Á sínum tíma var til þess tekið að Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, málgagns Framsóknarflokksins, eignaði sér og Framsóknarflokknum sigur í bandarískum forsetakosningum. Að þessu sinni hefur Framsóknarflokkurinn lýst yfir stuðningi við Barack Obama.

Helgi Hjörvar, samfylkingarmaður á alþingi, flutti þingræðu í dag um að Sjálfstæðisflokkurinn væri í einhverjum tengslum við flokk repúblíkana. Helgi gerði þetta örugglega til að minna á að hann væri Obama-maður.  Könnunin á fylgi Obama hér á landi sýnir að tal um stuðning sjálfstæðismanna við Romney er út í hött eins og svo margt sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins segja um skoðanir og stefnu hans.

Allt er þetta skrýtilegt, en þó ekki. Íslendingar lifa sig miklu meira á sinn sérkennilega hátt inn í kosningaátök í Bandaríkjunum en í Evrópu. Stjórnmálafræðingar (sálfræðingar ?) ættu að kanna af hverju þetta stafar og hvort þetta bendi ekki frekar til að auka eigi tengsl vestur yfir Atlantshaf en austur.