5.11.2012 22:20

Mánudagur 05. 11. 12

Nokkrar umræður urðu um miðlun upplýsinga um gang ESB-viðræðnanna á alþingi í dag eins og sjá má hér. Þetta kom illa við Gísla Baldvinsson, bloggara Samfylkingarinnar, sem sagði á vefsíðu sinni:

„Á í hvert sinn þegar samningaviðræður eru enn á trúnaðarstigi að veikja stöðu okkar í alþjóðasamskiptum með því að aflétta trúnaði?

Hver er eiginlega tilgangurinn? Ætti þá það að vera fordæmisgefandi.

Eru frambjóðendur Framsóknar í NV og NA ekki með réttu ráði?
Leitt að sjá Ragnheiði E. Árnadóttur í þessu gjammliði.

Eru engin mörk á vitleysunni?“

Þetta eru ótrúleg stóryrði þegar um er að ræða sjálfsagða ósk þingmanna um að trúnaði sé aflétt og málfrelsi þeirra njóti sín þegar ráðherra talar á þingi en þeim er bannað að gera athugasemd vegna afstöðu formanns utanríkismálanefndar þingsins. Raunar er eins ólýðræðislegt og frekast má vera að afhenda formanni þingnefndar vald til að hindra þingmenn annarra flokka í að segja skoðun sína. Sætir furðu að þingmenn láti bjóða sér slíka vitleysu. Um trúnaðarskyldu eiga að gilda hlutlægar reglur og meirihluti þingnefndar á að ráða en ekki formaður hennar.

Þegar orð ESB-sinnans Gísla Baldvinssonar eru lesin má spyrja: Hvar hefur maðurinn verið undanfarin misseri? Hvernig heldur hann að ástandið væri innan ESB ef stjórnmálamenn þar fylgdu reglu Árna Þórs Sigurðssonar að ekki megi segja frá stefnu gagnvart ESB-úrlausnarefnum á undirbúningsstigi? „Samningaviðræður“ Íslendinga við ESB um bann við viðskiptum með lifandi dýr er ekki á neinu „trúnaðarstigi“. Þær eru ekki hafnar, spurningin snýst um afstöðu Íslands í viðræðunum og orðalag á henni. Hvers vegna má ekki ræða málið fyrir opnum tjöldum?