4.11.2012 21:40

Sunnudagur 04. 11. 12

Eftir hávaðarok undanfarna tvo sólarhringa var logn og heiðskírt í Fljótshlíðinni í dag, einstaklega fallegt veður og gott til að átta sig á kröftum náttúrunnar. Nú hefur verið auglýst að á döfinni sé að leita eftir heitu vatni með borun við Goðaland í nóvember. Sveitarfélagið stendur að þessari leit en einstaklingum er boðið að hafa samband við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem kemur með borinn. Sjálfsagt er að velta fyrir sér hvort taka eigi boðinu.

Fljótshlíðin er umlukin eldfjöllum og er einkennilegt sé hún kalt svæði eins og sumir hafa sagt.

Við hús mitt er flaggstöng, rammlega fest. Ég tók eftir því í rokinu að stöngin lá á jörðinni og taldi víst að hugulsamur nágranni hefði komið á vettvang, losað boltann á naglanum sem heldur stönginni í festingunni og lagt hana niður svo að hún brotnaði ekki í veðurofsanum. Mér til undrunar hafði engin mannshendi átt þar hlut að máli heldur var hristingurinn í rokinu svo mikill að róin losnaði og stöngin féll. Hún er óbrotin.