1.11.2012

Fimmtudagur 01. 11. 12

Sama sagan er hafin í héraðsdómi og flutt var í Baugsmálinu um að ákæruvaldið kunni ekki til verka þegar það ákærir fjármálamenn. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs í Baugsmálinu,  hefur Sigurð Einarsson sem skjólstæðing í máli á hendur stjórnendum Kaupþings. Gestur kann til verka þegar að því kemur að beina árásum á ákæruvaldið og vekja grunsemdir um vinnubrögð þess. Í Baugsmálinu var vinkillinn pólitískur og talið að stjórnmálamenn stæðu að baki ákærunni á hendur Jóni Ásgeiri og félögum. Nú eru einhver önnur annarleg sjónarmið sögð ráða ferðinni.

Hinn mikli munur er þó á þessum málaferlum og Baugsmálinu að hinir ákærðu eiga ekki fjölmiðla til að búa í haginn fyrir sig gagnvart almenningi eins og Fréttablaðið gerði þegar ákærur á hendur Jóni Ásgeiri og Jóhannesi, föður hans, voru birtar. Þá var gefinn út sérstakur kálfur með blaðinu þar sem lögmenn þeirra gerðu athugasemdir við einstaka ákæruliði og feðgarnir gerðu grein fyrir málinu frá sínum sjónarhóli. Útgáfa kálfsins var geymd þar til birst hafði grein um ákæruna hafi birst í The Guardian í London en þar var leitast við að gera lítið úr henni.

Ekkert af þessu tagi gerist núna og álitsgjafar sem drógu taum Baugsmanna eru nú alfarið andvígir hinum ákærðu. Sumir þeirra láta að vísu eins og einhverju öðru hafi gegnt um Baugsmálið en til dæmis Kaupþingsmálið núna þótt þeir skýri ekki hvað þetta „annað“ er, líklega var það frekar í huga þeirra sjálfra en réttarsalnum.