Laugardagur 31. 12. 11.
Í Þýskalandi hafa sjónvarpsáhorfendur getað horft á sama enska gamanþáttinn á gamlárskvöld síðan 1963. Hann er kynntur undir nafninu: The 90th Birthday eða Dinner for One. Hið einkennilega er að í hinum enskumælandi heimi er myndin næstum óþekkt. Í myndinni eru tveir leikendur. Hin auðuga Miss Sophie sem ákveður að halda upp á 90 ára afmæli sitt þótt allir vinir hennar séu gengnir á vit feðra sinna. Hún minnist þeirra með þjóni sínum James sem verður að leika fjóra gesti og drekka fyrir þá alla.
Fyrir þessi áramót flaug endurgerð af myndinni um netheima undir nafninu: 90. björgunarfundur leiðtoganna, eða Evrur fyrir engan. Í stað Miss Sophie er Angela Merkel og Nicola Sarkozy er í stað þjónsins sem verður að drekka fyrir evru-leiðtogana sem koma ekki til fundarins, til dæmis George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, sem neyddist til að segja af sér eftir að hann orðaði að gríska þjóðin ætti að ákveða aðgerðir sem jafngiltu evru-aðild eða ekki. Hér má sjá hina nýju evru-útgáfu af þættinum.
Það er sniðug lausn hjá þýskum sjónvarpsstöðvum að leysa dagskrármál á gamlárskvöld á þenna hátt. Áhorfendur geta lesið það út úr hinni sígildu mynd sem þeir vilja. Í RÚV er áramótaskaupið á þann veg nú orðið að segja verður í texta um hvern er fjallað af því að persónugerðin er svo léleg. Höfundarnir óttast að annars mundu áhorfendur ekki ná því sem að þeim er haldið. Að þessu sinni einkenndist skaupið auk þess af illgirni í garð einstaklinga, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.