30.12.2011

Föstudagur 30. 12. 11.

Stjórnarhættir batna ekki með fækkun ráðherra. Lýðræðislegt eftirlit með stjórnarathöfnum minnkar, gagnsæi í stjórnsýslu verður minna. Ákvarðanir stjórnarflokkanna í dag um að fækka ráðherrum úr 10 í átta er skref í ranga átt frá sjónarhóli stjórnsýslunnar. Þá er pólitískt hættulegt að færa of mikið ráðherravald á hendur einstakra manna. Það verður sérstaklega samþjappað í þremur ráðuneytum: velferðarráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti og innanríkisráðuneyti. Tvö þessara stóru ráðuneyta eru í höndum vinstri-grænna. Þá er óvenjulegt að einn flokkur, Samfylking, hafi þrjú ráðuneyti: forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti á eigin hendi. Loks er hættulegt fyrir ríkisstjórn að hafa ekki nema fjóra fulltrúa innan þingflokka sinna. Líkur á uppþotum meðal stjórnarþingmanna aukast. Svigrúm ráðherra minnkar, líkur á aðgerðarleysi vegna ágreinings eykst.

Með allt þetta í huga hafa stjórnarflokkarnir tekið rangar ákvarðanir í dag. Fyrir ríkisstjórnina bera þær dauðann í sér. Það á ekkert skylt við hvort þessi eða hinn situr í ríkisstjórninni heldur stafar af efni ákvarðananna sjálfra. Undir forsystu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur enn einn feilsporið verið stigið í landstjórninni. Það er með ólíkindum að þingflokkur Samfylkingarinnar skuli líða henni að stjórna á þennan hátt. 

Málið snýst ekki lengur um að hreinræktuð vinstri stjórn sitji í heilt kjörtímabil heldur hitt að draga sem lengst að gengið verði til kosninga. Stjórnarliðar vita að þeir munu falla unnvörpum í komandi kosningum.

Álitsgjafi og umræðustjóri RÚV, Egill Helgason, sýnir þessu brölti stjórnarherranna skilning. Það er ekki gæðastimpill sé tekið mið af því að hann taldi Borgarahreyfinguna pólitískt framtíðarafl í þingkosningunum í apríl 2009.