Fimmtudagur 29. 12. 11
Þáttur okkar Davíðs Oddssonar á ÍNN er kominn inn á netið og má sjá hann hér. Eitt af því sem við undruðumst var hvernig Jóhanna og Steingrímur J. hafa staðið að umræðum um breytingu á ríkisstjórninni. Ekki minnkar undrunin við fréttir sem berast í dag um að forystumenn stjórnarflokkanna hafi átt í viðræðum um hlutleysi við þingmenn Hreyfingarinnar og geri hosur sínar grænar fyrir Guðmundi Steingrímssyni auk þess að boða þingflokka sína til funda á morgun fyrir ríkisráðsfund 31. desember.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að Össur Skarphéðinsson hefði lagt á ráðin við sig áður en viðræðurnar hófust við Jóhönnu og Steingrím j. Össur sá um svipað leyti ástæðu til að sitja fyrir svörum í Kastljósi til að segja setu Jóns Bjarnasonar í ríkisstjórn tryggingu fyrir trúverðugleika í ESB-viðræðunum. Helsta markmið Samfylkingarinnar er að losna við Jón úr ríkisstjórn.
Fréttir herma að Hreyfingin krefjist þess að Ásta Ragnheiður hverfi úr embætti forseta alþingis af því að hún brá ekki fæti fyrir að tillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun landsdómsákæru kæmist á dagskrá þingsins. Þór Saari stígur varla í ræðustól alþingis án þess að hallmæla þingmönnum og fordæma þingstörf. Það er vissulega í anda hans að reka þingforseta fyrir að koma ekki í veg fyrir að viðkvæmt mál komist á dagskrá þingsins.
Í kvöld ræddi Gunnar Gunnarsson í Speglinum á RÚV við Vilhjálm H. Vilhjálmsson lögfræðing um ferð hans til Norður-Kóreu fyrir nokkrum mánuðunum. Ferðin var vel undir búin af þeim sem skipulögðu hana og meðal annars hittu ferðalangarnir Barböru Demick, höfund bókarinnar Engan þarf að öfunda. Bókafélagið Ugla gaf hana út á íslensku fyrr á þessu ári. Þótt bókin hafi selst vel á íslensku og vakið töluverðar umræður var engu líkara en hvorki Vilhjálmur né Gunnar vissu um að hún hefði komið út hér á landi. Vilhjálmur nefndi hana á ensku og Gunnar lét það gott heita. Þetta sýnir hve vitneskja manna getur verið stopul um það sem aðrir telja sjálfsagt að allir með áhuga á N-Kóreu viti.