26.12.2011

Mánudagur 26. 12. 11

Einkenni málflutnings þeirra sem vilja ekki að gert sé hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og á ástæðunum fyrir því að sótt var um aðild eru hin sömu: í báðum tilvikum má ekki ræða efni málsins.

Að baki samþykkt aðildarviðræðnanna liggur sú blekking að unnt sé að sækja um aðild að ESB án þess að ætla sér annað en athuga hvað í henni felist. Þegar þeirri athugun verði lokið megi skoða niðurstöðuna og taka afstöðu til hennar. Málið er ekki svona einfalt. Aðildarumsókn jafngildir ákvörðun um aðlögun. Þá staðreynd hefur verið leitast við að fela í 30 mánuði. Feluleikurinn hefur eyðilagt trúverðugleika íslensku viðræðunefndarinnar og gert hana svo háða viðmælendum sínum í Brussel að þeir telja sig hafa örlög nefndarinnar í hendi sér.

Hvarvetna innan ESB-ríkja má sjá málsmetandi menn, þar á meðal einlæga stuðningsmenn Evrópusamrunans, vekja máls á hinni einstöku áskorun sem blasir við ríkisstjórnum aðildarríkjanna þegar samstaða þeirra hefur brostið og enginn sér enn hvernig brotunum verður raðað saman. Stuðningsmenn ESB á Íslandi stinga höfðinu í sandinn þegar vakið er máls á þessari áskorun. Þeir vilja ekki ræða framtíð ESB.