23.12.2011

Föstudagur 23. 12. 11

Vaclav Havel, fyrsti forseti frjálsrar Tékkóslóvakíu, var borinn til grafar í dag. Hinn 29. janúar 1990, þegar aðeins mánuður var liðinn frá því að Havel var kjörinn forseti, sat ég blaðamannafund hans á vegum Morgunblaðsins í forsetahöllinni Prag og þá sagði hann ekki útilokað að hann yrði í Reykjavík í febrúar sama ár þegar leikirit eftir hann yrði frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Það gekk eftir því að innan við mánuði síðar heimsótti hann Ísland og sá frumsýningu á verki sínu Endurbyggingu  en boðið frá Þjóðleikhúsinu þakkaði hann áður en hann var kjörinn forseti og vildi ekki afþakka þrátt fyrir hið nýja, ábyrgðarmikla hlutverk sitt.

Í frásögn minni af fundinum kemur fram að menn þurfi ekki að dveljast lengi í Prag til að átta sig á því að Havel væri hetja hinnar friðsamlegu byltingar í Prag sem þá var á allra vörum enda varð hún síðustu mánuði ársins 1989.  Íbúarnir sögðu að þeir hylltu hann og elskuðu.

Á blaðamannafundinum 29. janúar 1990 sagðist Havel ætla að endurnýja sjálfstraust og virðingu Tékkóslóvaka eftir að hafa verið „aðgerðarlaus nýlenda" í rúm 40 ár. Jafnframt væri nauðsynlegt að hefja forsetaembættið til nýs vegar eftir niðurlægingarskeið alræðisins. Nú þegar hann er kvaddur efast enginn um að honum hafi tekist það.

 Í lok frásagnar minnar sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins 30. janúar 1990 sagði:

„Enginn sérstakur tilgangur virtist vera með þessum blaðamannafundi forsetans, annar en sá að gefa þjóðinni tækifæri til að hlýða á boðskap hans, en sjónvarpað var beint af fundinum. Sérfróðir aðilargátu sér þess til að Havel vildi sýna að hann væri með valdataumana í hendi sér eftir orðróm undanfarna daga um að félagar í öryggislögreglunni, sem leyst var upp fyrr í mánuðinum, undirbyggju valdarán.“