21.12.2011

Miðvikudagur 21. 12. 11

Þóra Arnórsdóttir ræddi við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Kastljósi kvöldsins. Samtalið snerist að mestu um ESB-viðræðurnar eins og lesa má hér. Þóra spurði þó einnig um Icesave-málið sem Össur segir nú að hann „stýri“ fyrir hönd þjóðarinnar. Hann ætli að ráða lögfræðinga innlenda og erlenda og síðan ætlum við að „setja hausinn undir okkur“ sagði Össur. Hann gerði lítið úr meirihluta utanríkismálnefndar sem vill ekki að hann fari með málið og lét eins og hann ynni að því í nánu samstarfi við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem fer með efnislegan þátt málsins þótt utanríkisráðuneytið hafi hið formlega fyrirsvar út á við.

Hvað felst í því að Össur ætli að „stýra“ þessum málarekstri? Ríkislögmanni er treyst fyrir málarekstri fyrir hönd ríkisins. Þótt embætti hans falli undir forsætisráðuneyti „stýrir“ forsætisráðherra honum ekki. Össur á að sjá til þess í samráði við ríkisstjórn og alþingi að samið sé við lögmenn um hagsmunagæslu Íslands en ekki „stýra“ þeim. Á fyrstu stigum Icesave-málsins taldi Svavar Gestsson sig hafa fundið patentlausn á Icesave-deilunni, hann þyrfti ekki neina lögfræðilega ráðgjöf. Þetta leiddi til þess að Svavar lék afleik aldarinnar. Tal Össurar í Kastljósi vekur ótta um að Össur ætli að feta í fótspor Svavars á lokastigi Icesave-málsins.

Össur fór undan í flæmingi þegar Þóra spurði hann hvers vegna hann fylgdi stefnunni um eitt Kína en viðurkenndi sjálfstæði Palestínu, hvort hann vissi ekki um sjálfstæðisbaráttu Tævana og Tíbeta. Hann sagði að Tíbetar hefðu aldrei beðið um stuðning við sjálfstæði sitt en minntist ekki á Tævana. Össur sagði að íslensk stjórnvöld hefðu alltaf verið beðin um að viðurkenna ríki áður en þau gerðu það. Tævanir hafa áratugum saman barist fyrir því að fá sjálfstæðisviðurkenningu. Það hefur greinilega farið fram hjá Össuri.

 

.