19.12.2011

Mánudagur 19. 12. 11

Listaverkið Dansleikur eftir Þorbjörgu Pálsdóttur var sett upp við Perluna fyrir 11 árum. Líklega eru fáar höggmyndir oftar myndaðar af ferðamönnum sem koma til landsins. Þeir stilla sér gjarnan upp meðal þeirra sem dansa í verkinu. Listaverkið og gervi-goshverinn í skógarjaðrinum fyrir suðaustan Perluna er hið eina sem dregur athygli hins mikla fjölda ferðamanna sem kemur í Perluna frá útsýninu.

Í kvöld kynntu sjónvarpsstöðvarnar hugmynd um allt annars konar starfsemi í Perlunni, hótel og baðstað. Hið einkennilega er að hugmyndin britist í tilboði frá hugsanlegum kaupendum Perlunnar af Orkuveitu Reykjavíkur. Af útboðinu mátti hins vegar ekki ráða að fyrir dyrum stæði að gjörbreyta öllu á þessum einstaka stað með sölu Perlunnar. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að það sé gert annað en að fara verður að öllum reglum.

Í borgarstjórn Reykjavíkur snerust menn gegn því á dögunum að hróflað yrði við trjám í Öskjuhlíðinni til að auka öryggi flugvéla á Reykjavíkurflugvelli. Eins og ég hef áður sagt er minna mál að grisja skóg en leyfa stórframkvæmdir eins og Háskólann í Reykjavík eða nú gjörbyltingu í og við Perluna.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig umræður um sölu Perlunnar þróast. Hinir stórtæku kaupendur minna dálítið á Huang Nubo frá Kína sem vildi eignast Grímsstaði á Fjöllum eins og aðrir kaupa sér lóð undir frístundahús.