16.12.2011

Föstudagur 16. 12. 11

Viðtal mitt á ÍNN  við Sigurð Má Jónsson blaðamann og höfund bókarinnar Icesave samningarnir - afleikur aldarinnar? er komið inn á netið eins og sjá má hér.

Einn þeirra sem hefur horft á þáttinn lýsti undrun yfir því að bókin vekti ekki meira umtal. Það væri með ólíkindum að kynnast því hvernig staðið hefði verið að Icesave-málinu af þeim Svavari Gestssyni og Steingrími J. Sigfússyni.  Eitt af því sem Sigurður Már segir er að hann hafi leitað logandi ljósi að mynd af samninganefnd Svavars. Hún hafi aldrei verið tekin, kannski vegna þess að nefndin hafi aldrei öll komið saman.

Þá er enn óupplýst hver það var sem setti Svavars-samninginn í ómerkt umslag og stakk honum inn um tvær póstlúgur á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2009. Þá höfðu Jóhanna og Steingrímur J. neitað að upplýsa þjóðina um efni samningsins frá 5. júní. Þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkti samninginn á sama fundi og hann var kynntur honum, innan VG komu fram efasemdir.

Það er sérkennilegt að Jóhanna og Steingrímur J. telji sig nú í stöðu til að neita að afturkalla landsdómsákæru á hendur Geir H. Haarde vegna virðingar fyrir góðum stjórnarháttum og að óhjákvæmilegt sé að refsa þeim sem hafi þá ekki í heiðri. Ég fjallaði um þetta í pistli hér á síðunni í dag.