15.12.2011

Fimmtudagur 15. 12. 11

Klukkan 12.00 á hádegi var ég í stofu 101 á háskólatorgi Háskóla Íslands þar sem Heimssýn efndi til fundar um evruna. Flutti ég ræðu ásamt Stefáni Jóhanni Stefánssyni, fyrrverandi vara-borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, en við erum báðir andvígir aðild Íslands að ESB. Hér má sjá punktana sem ég notaði.

Í ræðu minni vék ég að því að Eistlendingar ættu nú í höggi við minni hagvöxt eftir aðild þeirra að evru-svæðinu. Einn fundarmanna mótmælti því og sagði hagvöxt þar mikinn, 8,1%. Ég sagðist ekki hafa gögn við hendina til að sanna mál mitt en þau má hins vegar sjá hér.

Jacques Chirac, fyrrverandi Frakklandsforseti, var dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í dag fyrir spillingu í borgarstjóratíð sinni í París 1990 til 1995. Ég sé ekki að verjandi hans tali nokkurs staðar um að þetta sé næsta stig sakfellingar við sýknu eins og Jakob R. Möller gerði eftir dóminn yfir Baugsfólkinu í skattamálinu á dögunum. Í Frakklandi átta menn sig á því, meira að segja lögmenn, að annað hvort eru menn sýknaðir eða sakfelldir.