Miðvikudagur 14. 12. 11
Það er með ólíkindum að stjórnmálamenn sem stóðu að samningunum um Icesave skuli sitja áfram á ráðherrastólum og tala núna eins og þeir séu best til þess fallnir að verja málstað Íslands fyrir EFTA-dómstólnum. Allar tilvitnanir í þessa menn fyrir dómstólnum úr umræðum um Icesave-málið fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011 verða til þess að veikja málstað Íslands.
Enn sannaðist í dag hve DV stendur nálægt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi en líkur hafa verið leiddar að því að fyrir nokkru hafi Jón Ásgeir átt hlut að því að leysa DV úr fjárhagsvanda. Í dag segir frá stefnu Jóns Ásgeirs á hendur mér og milljón króna kröfu vegna prentvillu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Jón Ásgeir vill 1 milljón króna í bætur vegna villurnar sem þegar hefur verið leiðrétt með afsökun minni. Í tilefni af því að Jón Ásgeir hefur komið stefnunni á framfæri við DV birti ég hér á síðunni greinargerð verjanda míns Jóns Magnússonar hrl. Hana má lesa hér.
Kolbeinn Ó. Proppé, blaðamaður á Fréttablaðinu. vitnar ranglega í orð mín í húskarlahorni blaðsins í dag. Rétt er að geta þess að Kolbeinn skipaði efsta sæti á framboðslista vinstri-grænna í suðurkjördæmi árið 2003. Hann náði ekki kjöri. Skrif hans í Fréttablaðið gefa til kynna að hann sé ekki hættur stjórnmálastörfum. Hann hyggst kannski bjóða sig fram að nýju í suðurkjördæmi úr því að Atli Gíslason hefur sagt skilið við vinstri-græna?