12.12.2011

Mánudagur 12. 12. 11

Í gær hafði ég orð á ólíku fréttamati hér á síðunni þegar sagt var frá könnun í Þýskalandi þar sem flestir aðspurðra töldu Þýskaland eiga betur heima utan ESB en innan.

Í dag var Össur Skarphéðinsson í Brussel að opna kafla (ekki jólapakka) með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB. Össuri til trausts og halds birti Fréttablaðið niðurstöðu í skoðanakönnun sem sýnir að tæplega 65% þjóðarinnar vill fá tækifæri til að greiða atkvæði um niðurstöðu í viðræðunum við ESB ljúki þeim einhvern tíma. Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt því að enginn vill að þessu máli ljúki án þess að þjóðin segi álit sitt á niðurstöðunni.

Í samræmi við annað í málflutningi ESB-aðildarsinna túlka þeir þetta á þann veg að um stuðning við málstað þeirra sé að ræða. Þetta er oftúlkun. Fólk vill fá að kjósa því að það sér enga aðra leið til að binda enda á þá vitleysu sem hófst með samþykkt alþingis 16. júlí 2009. Meirihlutinn mun örugglega fella samning takist einhvern tíma að ná honum. Verði farið að þeim skilyrðum sem sett hafa verið í orði verður aldrei samið og er þá vísað til þess ESB sem var árið 2009.

tala menn í Brussel um ESB II, það er ESB eftir að Bretar sögðu skilið við evru-ríkin. Alþingi Íslendinga sótti ekki um aðild að ESB II. Hvernig væri að kanna aðildarskilyrðin þar áður en lengra er haldið?

Össur Skarphéðinsson var í Moskvu á dögunum. Hann snýr til baka og ritar lofgrein um valdhafana í Kreml í Morgunblaðið 9. desember. Greinin hefur ekki fyrr birst en mestu fjöldamótmæli verða gegn sjálfum Pútín. Greinin minnir helst á ræðu Össurar í Brussel sumarið 2010 þar sem hann lýsti þrá sinni eftir evrunni og blaðamenn hlógu. Það er fleira skrýtið í þessari grein eins og sjá má hér.