11.12.2011

Sunnudagur 11. 12. 11

Fréttamatið er ólíkt eftir fjölmiðlum. Nýtt dæmi er að finna í frásögnum af skoðanakönnun í Þýskalandi sem sýnir að 46% Þjóðverja telja Þýskaland betur sett utan ESB, 51% telja framtíð evrunnar neikvæða en 60% telja að Evópusambandið muni ekki liðast í sundur.

Ég sé að á mbl.is birta menn aðeins þann punkt úr þessari frétt að 60% Þjóðverja telji ESB ekki á leið til upplausnar. Ég skrifaði hins vegar frétt á Evrópuvaktina í kvöld þar sem ég lagði áherslu á hina punktana. Mér finnst í raun stórmerkilegt að flestir samkvæmt þessari könnun telji Þýskaland betur sett utan ESB.

Allar götur síðan Frakkar og Þjóðverjar hófu samstarfið sem síðan gat af sér ESB hefur það verið þungamiðja í þýskum stjórnmálum að ESB væri í raun forsenda fyrir tilvist Þýskalands nútímans, vexti þess og velgengni.