9.12.2011

Föstudagur 09. 12. 11

Á leiðtogafundi ESB í gær og í dag var ákveðið að taka evruna undan stjórnkerfi og sáttmálum ESB og semja um reglur henni til bjargar á milli evru-ríkjanna 17 og við ekki-evru-ríki sem stefna að því að taka upp evru eða eiga allt sitt undir henni eins og Danir. Þetta hlýtur að vekja þá spurningu hvort nauðsynlegt sé að semja við ESB til að geta tekið upp evru. Dugar ekki að gerast aðili að evru-samkomulagi evru-ríkjanna eins og að semja við Schengen-ríkin um aðild að Schengen?

Héraðsdómur var felldur í dag í skattamáli Baugsmannanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónsson og Kristínar Jóhannesdóttur. Þau voru fundin sek en sett á skilorð í eitt ár vegna þess hvernig ákæruvaldið hefur haldið á málinu. Er það vissulega gagnrýnisvert og ljóst að engin tímamörk sem saksóknari í málinu setti sér hafa staðist.

Viðbrögð Jóns Ásgeirs eru í samræmi við annað í málatilbúnaði hans. Hann telur að sakfelling í þessu máli sé „fullnaðarsigur“ fyrir sig og Jakob R. Möller hrl. segir að dómsorðið standi næst því að vera sýkna. Í sjálfu sér má það til sanns vegar færa að sakfelling standi alltaf næst því að vera sýkna því að almennt eru þessir tveir kostir í boði í sakamálum.

Ég hef áður sagt að fordæmi dómara í Baugsmálinu setji sérstökum saksóknara skorður í málum sem hann hefur til úrvinnslu. Hann þarf að huga að tímamörkum ekki síður en gera þurfti í þessu skattamáli Baugs og Baugsmálinu almennt.

Ég minni á að Jón Ásgeir hefur stefnt mér fyrir dómstóla vegna ritvillu í bók minni um Baugsmálið Rosabaugur yfir Íslandi. Jón Magnússon hrl., lögmaður minn, hefur lagt fram greinargerð í málinu. Ég veit ekki hvenær það verður tekið til meðferðar. Það verður fróðlegt að vita hvort dómarinn setur prentvillupúkann á skilorð og Jón Ásgeir telji það líka fullnaðarsigur sinn í þeim málaferlum.