Föstudagur 09. 12. 11
Héraðsdómur var felldur í dag í skattamáli Baugsmannanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónsson og Kristínar Jóhannesdóttur. Þau voru fundin sek en sett á skilorð í eitt ár vegna þess hvernig ákæruvaldið hefur haldið á málinu. Er það vissulega gagnrýnisvert og ljóst að engin tímamörk sem saksóknari í málinu setti sér hafa staðist.
Viðbrögð Jóns Ásgeirs eru í samræmi við annað í málatilbúnaði hans. Hann telur að sakfelling í þessu máli sé „fullnaðarsigur“ fyrir sig og Jakob R. Möller hrl. segir að dómsorðið standi næst því að vera sýkna. Í sjálfu sér má það til sanns vegar færa að sakfelling standi alltaf næst því að vera sýkna því að almennt eru þessir tveir kostir í boði í sakamálum.
Ég hef áður sagt að fordæmi dómara í Baugsmálinu setji sérstökum saksóknara skorður í málum sem hann hefur til úrvinnslu. Hann þarf að huga að tímamörkum ekki síður en gera þurfti í þessu skattamáli Baugs og Baugsmálinu almennt.
Ég minni á að Jón Ásgeir hefur stefnt mér fyrir dómstóla vegna ritvillu í bók minni um Baugsmálið Rosabaugur yfir Íslandi. Jón Magnússon hrl., lögmaður minn, hefur lagt fram greinargerð í málinu. Ég veit ekki hvenær það verður tekið til meðferðar. Það verður fróðlegt að vita hvort dómarinn setur prentvillupúkann á skilorð og Jón Ásgeir telji það líka fullnaðarsigur sinn í þeim málaferlum.