8.12.2011

Fimmtudagur 08. 12. 11

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna hittu Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, á fundi í Brussel í dag. Þeir deildu um eldflaugavarnakerfi NATO sem hefur verið kappsmál Bandaríkjamanna allt síðan á dögum Ronalds Reagans. Fundi þeirra Reagans og Mikhails Gorbatsjovs í Höfða fyrir 25 árum lauk án samkomulags af því að Reagan hélt fast í rétt Bandaríkjamanna til að setja upp eldflaugavarnakerfi.

Eins og sést af þessari frétt telja menn almennt að enginn árangur hafi náðst á fundinum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem sat fundinn fyrir Íslands hönd er þó bjartsýnn og þótti honum Lavrov mildari í máli en hann vænti. Össur hitti Lavrov nýlega í Moskvu, kannski var hann grimmari við hann þar.

Athyglisvert að Össur minnist ekki á eldflaugavarnakerfi heldur talar um „skotflaugar“ sem er ekki orð sem menn nota almennt um kjarnorkueldflaugar. Frá því að Samfylkingin tók við stjórn utanríkisráðuneytisins hefur NATO tekið ákvarðarnir um að ráðast í uppsetningu eldflaugavarnakerfisins. Þetta er skynsamleg ákvörðun í ljósi þess sem er að gerast í Íran.

Hitt er ekki skynsamlegt fyrir Össur að setja á svið eitthvað leikrit í kringum fundinn með Lavrov um eldflaugarnar. Það er alvarlegt mál ef Rússar eru teknir til við að hóta vesturhluta Evrópu með eldflaugum til að ná pólitískum markmiðum sínum og hlutast til um innri málefni NATO.

Össur hefur brugðist við ábendingum um árverkni í öryggismálum með því að blása á þær hvort sem þær koma frá sænskum varnarmálasérfræðingum eða kanadíska hernum. Nú hefur hann setið fund með rússneska utanríkisráðherranum í höfuðstöðvum NATO og virðist sjá fundinn með allt öðrum augum en lýst er í fréttaskeytum. Hvað veldur?