5.12.2011

Mánudagur 05. 12. 11

Í dag ákvað samfylkingarþingmaðurinn Kristján Möller að nota formennsku sína í þingnefnd til að kalla umboðsmann Huangs Nubos, auðmanns frá Kína, fyrir sig til að heyra frá honum hvað þingmenn þurfi að gera til að Huang láti að sér kveða hér á landi. Er enn farið inn á nýjar brautir á vegum Samfylkingarinnar til að koma til móts við Huang. Skal enn lýst undrun yfir því að enginn fjölmiðill sjái ástæðu til að kynna almenningi hve hart Samfylkingin gengur fram í málinu.  Mætti til dæmis skoða hvernig þessi barátta fellur að þeim boðskap flokksins að hann berjist gegn sérhagsmunum og leggi sig alls ekki fram um að þjóna þeim.

Össur Skarphéðinsson tók sér fyrir hendur í dag að rangfæra orð sérfræðinga kanadíska hersins í tengslum við áform Huangs eins og lesa má hér.

Það skýrist dag frá degi að hverju Angela Merkel og Nicolas Sarkozy vilja stefna innan Evrópusambandsins. Þau vilja breyta skipulaginu til að herða tök á ríkjum, að minnsta kosti evru-ríkjum. Hér eru ESB-aðildarsinnar á borð við Jón Baldvin Hannibalsson og Guðmund Gunnarsson teknir til við að tala um að við ættum að áskilja okkur rétt að standa utan aðildar að evrunni. Þetta bendir til þess að eitthvað annað vaki fyrir þessum mönnum en aðild að ESB. Það á leita eftir undanþágu á öllum sviðum. Einfaldasta leiðin til að gulltryggja þessar undanþágur en eiga gott samstarf við ESB felst í aðild að evrópska efnahagssvæðinu (EES).