3.12.2011

Laugardagur 03. 12. 11

Það er með ólíkindum að Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra skuli gefa embættismönnum sínum fyrirmæli um að aðstoða Huang Nubo við að koma sér fyrir hér á landi á þann hátt sem honum þyki best. Katrín grípur til þessara aðgerða trú hollustu forystumanna Samfylkingarinnar við Huang.

Þegar Huang Nubo var hér í leit að fjárfestingarkostum var embættismaður í utanríkisráðuneytinu í fylgd með honum og þeir óku í bifreið sem utanríkisráðuneytið lét þeim í té í umboði Össurar Skarphéðinssonar. Huang naut lögfræðilegrar ráðgjafar Lúðvíks Bergvinssonar, fyrrverandi þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Tryggvi Harðarson, samfylkingarmaður og vinur Huangs, er sveitarstjóri í Þingeyjarsveit. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, ritaði greinargerð og lagði fyrir ríkisstjórnina 9. nóvember þar sem hann dó taum Huangs og lagði að innanríkisráðherra að taka umsókn hans um undanþágu vel.

Samfylkingin hefur verið Huang Nubo innan handar og kveikt áhuga hans á að fjárfesta hér á landi. Hún ætlar ekki að gera endasleppt við hann og nú tekur Katrín Júlíusdóttir hann að sér.

Innan úr Samfylkingunni hafa heyrst raddir um að neitun Ögmundar hafi verið ólögmæt. Katrín Júlíusdóttir hefur nú tekið ábyrgðina á því að leiða Huang að nýju um landið, hún hlýtur að gæta að lögmæti afskipta sinna.

Ég skrifaði einnig um þetta á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.