1.12.2011

Fimmtudagur 01. 12. 11

Samtal okkar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um bók hans Íslenskir kommúnistar á ÍNN er nú komið inn á netið og má sjá það hér.

Ég fylgdist með viðræðum Guðna Ágústssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar á Hrafnaþingi á ÍNN í kvöld og heyrði ekki betur en Jón Baldvin teldi að við ættum að semja við ESB um aðild með fyrirvara um að við hefðum sömu stöðu gagnvart evrunni og Danir. Þetta er furðuleg skoðun í ljósi þess að helsta röksemd manna eins og Jóns Baldvins fyrir aðildarumsókninni hefur verið ágæti þess að taka upp evruna.

Innan ESB eru tvö ríki undanþegin skyldu til að taka upp evru, Danmörk og Bretland. Öllum öðrum ríkjum ber að gera það fyrr en seinna eftir að þau eru dæmd hæf til þess. Danir höfnuðu því á sínum tíma í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp evru. Það er fráleitt að ætla að ESB semji við einhvern um aðild á þann veg að hann fái sérstöðu Dana. Svíar höfnuðu einnig í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp evru. Þeim ber hins vegar að gera það því að þeir hafa ekki sama fyrirvara og Danir. Fyrst þurfa sænsk stjórnvöld að ákveða að tala þátt í gjaldmiðlasamstarfinu, ERM II. Þau vilja  ekki gera það af því að enginn í Svíþjóð sér hag af því að taka upp evruna.

Í dag fór ég í Gunnarsholt þar sem Rotary-klúbburinn á Hvolsvelli boðaði til fróðlegrar ráðstefnu um eldgosavá sem Ísólfur Gylfi Pálmason, forseti klúbbsins og sveitarstjóri í Rangárþingi eystra stjórnaði af röggsemi. Fjölmargir fyrirlestrar voru fluttir sem brugðu ljósi á það sem gerst hefur hér á Suðurlandi og hvað kann að vera í vændum. Alvarlegustu eftirköst eldgossins í Eyjafjallajökli er framburðurinn í ánum suður undir Eyjafjöllum. Þar er um mikinn óleystan vanda að ræða. Vegagerðin glímir við hann fyrir ofan þjóðveg 1 en Landgræðsla ríkisins fyrir neðan.

Eftir ráðstefnuna sýndi Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri okkur nokkrum myndarlega og fróðlega sögusýningu sem komið hefur verið á fót í gömlu hesthúsi vestan við meginbyggingarnar í Gunnarsholti. Þar er einnig góð aðstaða til fræðiiðkana.