29.6.2011

Miðvikudagur 29. 06. 11.

Í dag ræddi ég við Einar Má Guðmundsson rithöfund í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Tilefnið var ný bók hans Bankastræti núll sem ég skrifa einnig um í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála sem er verið að dreifa til áskrifenda og í verslanir.

Ég hvet menn til að lesa bók Einars Más til að kynnast því hvernig rithöfundur skrifar sig inn í samtímann á eftirminnilegan hátt. Allt annar og heilbrigðari tónn er í málflutningi Einars Más en þeirra rithöfunda sem lögðu Baugsmönnum lið fyrir bankahrun. Frá þeim segi ég í Rosabaugi yfir Íslandi sem nú er kominn í 2. prentun.

Í samtali okkar minntist Einar Már þess að hann hefði á sínum tíma verið rekinn frá Stöð 2 sem pistlahöfundur en frá því segir hann í Hvítu bókinn sem hann sendi frá sér fyrir nokkrum misserum. Hún vakti mikla athygli í útlöndum.

Einar Már telur fráleitt að leggja á skattgreiðendur að axla tap af rekstri einkabanka. Í dag samþykkti gríska þingi fyrri hluta aðgerða ríkisstjórnar Grikklands sem miða að því að þýskir og franskir bankar tapi engu þótt gríska ríkið sé gjaldþrota, grískir skattgreiðendur standi undir skuldum ríkisins við bankana.

Breska vikuritið The Spectator birti í leiðara sínum 25. júní ádrepu vegna harðræðis ESB og AGS gagnvart Grikkjum sem blaðið líkir við sadisma jafnframt vekur blaðið athygli á því að Íslendingar hafi sýnt skynsemi með því að axla ekki skuldir einkarekinna banka. Blaðið telur það mesta blessun Íslendinga á þessum örlagatímum að standa utan evru-svæðisins.