28.6.2011

Þriðjudagur 28. 06. 11.

Ótrúlegur munur var á lofthita í Fljótshlíðinni í dag miðað við kalda norðanáttina í gær. Nú er dagurinn farinn að styttast aftur og sumarið tæplega komið hér á suðurlandi hvað þá heldur fyrir norðan.

Fyrirtækið Tal efnir nú til söluherferðar hér í 105 Reykjavík. Kynningarseðill er sendur og síðan ganga sölumenn í hús og bjóða 44% lægri gjöld en Síminn og 31% lægri gjöld en Vodafone. Hvort þjónustan er hin sama veit ég ekki. Verðmunurinn er hins vegar sláandi.

Stórmerkilegt var að hlusta á Michael Porter Harvard-prófessor í Kastljósi kvöldsins þegar hann hvatti til mikillar sóknar Íslendinga í jarðvarmamálum. Hann sagði meðal annars eftir því sem stendur á mbl.is:

„Ég held að hér ríki of mikil svartsýni. Hún er að hluta vegna viðbragða við gríðarlega niðurdrepandi niðursveiflu í efnahagslífinu sem fæstir Íslendingar bera ábyrgð á. Erlendar fjárfestingar, sem snúast um hátækni, vel launuð störf og þátttöku landsins í hagkerfi heimsins á mikilvægu sviði eru gríðarlega mikilvægar. En ég held að  þjóðin tengi með einhverjum hætti erlendar fjárfestingar við fjármálahrunið. En vandamálið var ekki að erlend fyrirtæki kæmu til Ísland og gerðu þar eitthvað af sér.“

Þetta er rétt hjá Porter. Hann lagði áherslu á að einkaaðilar yrðu að taka frumkvæði til að mynda hér jarðvarmaklasa sem myndi skila sér margfalt og styrkja innviði samfélagsins. Þetta yrði þó ekki gert án þess að pólitísk forysta yrði einnig skýr. Allir vita að þar stendur hnífurinn í kúnni.

Fram til 9. apríl skýldu ráðherrar sér á bakvið Icesave, yrði ekki sagt við afarkostum Breta og Hollendinga myndi enginn erlendur fjárfestir koma til landsins. Þetta voru ósannindi eins og annað sem ríkisstjórnin sagði fyrir 9. apríl um Icesave. Ríkisstjórnin sjálf er helsti þröskuldurinn í vegi erlendrar fjárfestingar.