Mánudagur 27. 06. 11.
Fyrir hrun var blásið á allar viðvaranir um að íslensku bankarnir væru á rangri leið. Þegar Morgunblaðið birti fréttir um þetta efni og vísaði meðal annars í úttektir á vegum Danske bank var talað um öfund Dana vegna þess hve Íslendingum vegnaði vel í fjármálaheiminum.
Eftir bankahrunið tóku menn að býsnast yfir því að enginn hefði vitað neitt í sinn haus og nú hefur verið höfðað landsdómsmál á hendur Geir H. Haarde með vísan til þess að hann hafi ekki sem forsætisráðherra tekið réttar pólitískar ákvarðanir í aðdraganda bankahrunsins.
Ástæða er til að rifja þetta upp í dag, 27. júní, þegar Össur Skarphéðinsson heldur með fríðu föruneyti til Brussel til að hefja hinar „eiginlegu samningaviðræður“ um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Váboðar um að Össur sé á rangri leið í ESB-málinu eru alls staðar. Meirihluti þjóðarinnar er andvígur aðild. Kröfur Íslands og ESB eru ósamrýmanlegar í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. ESB er í upplausn. Þaðan hafa borist boð frá stækkunarskrifstofu ESB sem benda til þess að þar á bæ vilji menn hægja mjög á viðræðunum við Ísland eða jafnvel gera hlé á þeim. Össur sagði hins vegar í Brussel að hann vildi flýta viðræðunum!
Þegar við blasir betur en nú að Össur leiddi þjóðina í ógöngur með því að stjórna ESB-málinu „listilega“, svo að notað sé orð Þorsteins Pálssonar, sem er í samninganefnd fyrir Össur, verður spennandi að vita hvort einhverjum dettur í hug að stefna honum fyrir landsdóm vegna þess að hann tók rangar ákvarðanir um samskipti Íslands og ESB og olli þjóðinni tjóni bæði fjárhagslegu og vegna orðspors hennar.