26.6.2011

Sunnudagur 26. 06. 11.

Spenna magnast nú á evru-svæðinu vegna atkvæðagreiðslu í gríska þinginu fyrir lok vikunnar um efnahagsaðgerðir sem ráða munu úrslitum um hvort Grikkir verði áfram gjaldgengir á evru-svæðinu eða ekki.

Það er í raun með ólíkindum að fylgjast með sviptingunum í kringum evruna vegna skuldavanda Grikkja. Æ fleiri tala nú um evru-kreppu en vanda Grikkja, Portúgala eða Íra. Gjaldmiðilssamstarfið hefur misheppnast, spurningin er hvort unnt verði að koma því á réttan kjöl eða ekki.

Stórundarlegt er hvernig þeir bregðast við evru-vandanum og Schengen-vandanum hér á landi sem vilja Ísland inn í ESB.

Egill Helgason fjallar um efnahagsmál líðandi stundar eins og ófarirnar megi rekja til Ronalds Reagans og Margaret Thatcher sem stjórnuðu í Bandaríkjunum og Bretlandi fyrir rúmum 20 árum. Þetta er ótrúleg vitleysa. Hvergi í Evrópu sjást þess merki að menn fyllist ofurtrú á því að ríkisvaldið geti með aukinni skattheimtu og höftum leyst efnahagsvandann. Aðeins hér á landi er skatta- og haftastefnu beitt og afleiðingarnar eru hörmulegar. Hvarvetna annars staðar í Evrópu er leitast við að takmarka hlut ríkisins til að komast sem fyrst út úr kreppunni. Varla heldur Egill að Reagan og Thatcher hafi komið á evrunni? Hún er að reynast hinn mikli skaðvaldur innan Evrópusambandsins.

Grímur Atlason segir í bloggi sínu að við Hjörleifur Guttormsson séum sammála í afstöðunni til Schengen-samstarfsins og höllumst að einhvers konar þjóðernislegri lýðskrumsstefnu. Hjörleifur hefur skrifað á móti Schengen-aðildinni. Það hef ég hvergi gert, þvert á móti hef ég mælt með henni. Ég tel hins vegar stórhættulegt að hætt hafi verið allri sérgreindri Schengen-hagsmunagæslu af hálfu Íslands í Brussel.

Hinar „eiginlegu samningaviðræður“ fulltrúa Íslands og ESB hefjast á morgun. ESB-aðildarsinnar hafa nú í tæp tvö ár kvartað undan skorti á „upplýstri umræðu“. Hún verður hvorki byggð á því að Reagan og Thatcher séu undirrót alls ills innan ESB né að við Hjörleifur Guttormsson séum sammála um afstöðuna til Schengen og þar með þjóðernislegir lýðskrumarar yst til hægri!