22.6.2011

Miðvikudagur 22. 06. 11.

Ég sé að Bubbi Morthens bloggar á Pressuna í dag um Rosabaug yfir Íslandi og segir meðal annars:

„Ég var að lesa bókina hans Björns Bjarnasonar þar sem hann reynir að færa sönnur fyrir því að óhamingja Íslands sé Jóni Ásgeiri að kenna og vinum hans og vinum vina hans. Gott og vel, menn reyna að skrifa söguna upp á nýtt!“

Þegar ég las þessar fyrstu setningar í umsögn Bubba um bókina sá ég í hendi mér að hann hafði lesið aðra bók en ég skrifaði. Bók mín er ekki nein ný uppskrift að sögunni. Þvert á móti rekur hún sögu Baugsmálsins samkvæmt opinberum heimildum.  Ég er ekki að sanna neitt nýtt í Baugsmálinu. Á hinn bóginn er ég sannfærður um að kynni menn sér bókina sjái þeir bakhlið málsins. Þá bendi ég á hve undarlegt er að þessa máls sé ekki getið í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis þar sem kvartað sé undan skort á opinberu eftirliti.

Af umsögnum nokkurra manna um bók mína, þar á meðal Bubba, dreg ég þá ályktun að því fari fjarri að undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafi verið búið svo um hnúta að gegnsæi ríki um þátttöku manna í viðskiptalífinu og þeir sem gengu hart fram við að tæma banka innan frá séu ekki að búa sig undir að verða þátttakendur í nýrri sveiflu. Því til stuðnings bendi ég á þessi orð Bubba þegar hann fjallar um bók mína:

„Útrásarvíkingar hafa aldrei verið orsökin fyrir hruninu, þeir voru og eru afleiðing stefnu Davíðs Oddsonar og þeirra manna sem voru hvað harðastir í því að láta drauma sína rætast og notuðu Ísland og þá sem landið byggja sem tilraunardýr. Draumur þeirra varð að martröð og núna reyna þeir að endurskrifa söguna einn af öðrum.“

Þessi orð stangast á við allt sem er satt og rétt þegar litið er til þess sem gerðist á árunum fyrir bankahrunið. Þurfi einhverjir að endurskrifa söguna til að rétta hlut sinn vegna bankahrunsins eru það þeir sem Bubbi tekur að sér að hvítþvo í pistlum sínum. Er sorglegt að sjá það leggjast fyrir Bubba að ganga erinda fjármálafursta með þessum ósannindum.