19.6.2011

Sunnudagur 19. 06. 11.

Fljótshlíðarveðrið var fagurt í dag þótt lofthitinn hefði mátt vera meiri.Við tókum þátt í því að fara með fé upp að Reynifelli vestan við Þríhyrning. Þaðan heldur það inn á afréttina. Þegar stigið er í þurrt grasið kemur ryk úr sporinu, líklega aska. Merkilegt er að þetta skaði ekki öndunarfæri fjárins.

Í dag bárust fréttir um að Jelena Bonner, mannréttindafrömuður í Rússlandi og ekkja Andreis Sakharovs friðarverðlaunahafa hefði látist í Moskvu 88 ára að aldri. Ég heimsótti hjónin í Moskvu í mars1987 eins og ég lýsti í Morgunblaðinu á þeim tíma en frásögnin er endurbirt í bók minni Í hita kalda stríðsins. Mér er þessi heimsókn mjög minnisstæð og hef síðan haft ljósmynd af mér með þeim hjónum, sem birtist með frásögn minni, í skrifstofum vinnustaða minna.

Ógjörningur er að eiga rökstuddan orðastað við Ólaf Arnason, dálkahöfund á Pressunni, um hegningarlagabrotið sem leiddi til þess að Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi 5. júní. Ólafur heldur því fram að bókhaldsbrot Jóns Ásgeirs hafi verið minniháttar þótt hann hafi verið dæmdur til refsingar fyrir meiriháttar bókhaldsbrot með allt að 6 ára refsiramma, sambærilegum og fyrir fjárdrátt.

Að Ólafur skuli halda áfram að væna mig um vísvitandi, ómaklega árás á Jón Ásgeir með augljósri ritvillu um refsingu hans er í anda þess málflutnings í þágu Baugsmanna sem ég lýsi í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Ég hélt að dylgjur af þessu tagi væru hluti fortíðarskrifa þeirra álitsgjafa sem tóku málstað Baugsmanna fram að bankahruni.