18.6.2011

Laugardagur 18. 06. 11.

Ég sé að Gunnlaugur Júlíusson, langhlaupari með meiru, hefur lesið bók mína Rosabaug yfir Íslandi á nýlegri ferð sinni til Parísar og skrifar vinsamlega um hana eins og lesa má hér. Hann víkur meðal annars að þeim sem hafa látið eins og þeir séu að skrifa um bókina en komast ekki yfir að ég skuli hafa skrifað hana og lýsa í raun frekar óvild sinni í minn garð en því sem í bókinni segir.

Önnur prentun bókarinnar ætti að koma á markað í næstu viku og þá kemur hún einnig út á rafrænu formi fyrir þá sem eiga iPad. Ég á ekki slíkt tæki en Jón Axel Ólafsson sýndi mér bókina í því á dögunum og vakti það undrun mína, sannkallað undratæki.

Þeir sem lesa bókina á iPad og eru nettengdir við lesturinn geta með því að slá á tilvitnanir í rafrænar heimildir skoðað frumheimildina sjálfa. Í raun má einnig setja tengingar í þingræður hvort heldur ritað mál, hlustun eða áhorf þeirra í slíkar bækur auk þess sem unnt er að tengja þær við efni sem geymt er í hlaðvörpum.

Eftir lausleg kynni af iPad og því sem unnt er að gera með því tæki og nýjustu snjallsímum, sem eru í raun bæði hljóðnemar og sjónvarpsmyndavélar, heyra síður eins og þessi hér, svo að ekki sé talað um hefðbundnar bækur, brátt til veraldar sem var.