14.6.2011

Þriðjudagur 14. 06. 11.

Undarlegt þótti mér að lesa árás Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar á Hannes Hólmstein Gissurarson í Fréttablaðinu í morgun. Þar veittist Guðmundur Andri að Hannesi fyrir að fræða nemendur um yfirburði markaðshagkerfisins í samanburði við sameignarstefnuna.

Erfitt er að túlka þessa grein rithöfundarins á annan veg en sem málsvörn fyrir sósíalisma og sameignarstefnu. Þjóðfélagsskoðun hans á undir högg að sækja alls staðar í Evrópu ef marka má úrslit kosninga og gífurlegan vanda tveggja vinstristjórna sem enn sitja við völd innan ESB, á Spáni og í Grikklandi.

Í ESB-ríkjum er ekki þörf á Hannesi Hólmsteini til að sannfæra kjósendur um að skynsamlegt sé að kjósa þá sem vilja minnka ríkisumsvif í stað þeirra sem hafa ofurtrú á ríkisafskiptum. Hér á landi hafa slík afskipti nú þróast á þann veg að leitað er að gjaldeyri í vösum og veskjum manna á leið úr landi í Leifsstöð Er þetta gert samkvæmt sérstökum fyrirmælum úr Seðlabanka Íslands.

Hlálegt er einnig við grein Guðmundar Andra að fyrir hrun skipaði hann sér í sveit með Samfylkingunni sem þótti ekki nóg að gert til að skapa sem mest svigrúm fyrir þá sem rithöfundurinn kallar nú „útrásardólga“. Þá lét hann sig ekki heldur muna um að skrifa dálka sína í helsta málgagn Baugsmanna, Fréttablaðið.

Helsta frétt á RÚV í dag hefur verið um Íslendinga í norska hernum sem meðal annars hafa verið sendir til Afganistan. Fyrir 30 árum fórum við Kjartan Gunnarsson saman til Líbanon að landamærum Ísraels og hittum Arnór Sigurjónsson sem þá var lautinant í norska hernum við friðargæslu á þessum slóðum. Þetta var átakasvæði eins og ég lýsti í greinaflokki sem birtist í Morgunblaðinu á sínum tíma og birtist einnig í bók minni í Hita kalda stríðsins.