11.6.2011

Laugardagur 11. 06. 11.

Sótti brautskráningarhátíð Háskóla Íslands í Laugardalshöll klukkan 14.00 í dag í tilefni af 100 ára afmæli skólans. Nú eru um 14.000 manns í skólanum, meiri hluti konur. Athöfnin tók um tvo tíma og var allt skipulag til fyrirmyndar og Kristín Ingólfsdóttir rektor flutti gott ávarp.

Þegar ég gekk frá Laugardalshöll að Ásmundarsafni sá ég að eigendur bíla höfðu verið sektaðir fyrir að leggja upp á grasið fyrir vestan höfuðstöðvar ÍSÍ. Lögreglunni ætlar að ganga illa að kenna bílstjórum að virða bannið við að leggja þarna. Kannski hefst það með tímanum en vissulega fælist í því þjónusta við bifreiðaeigendur að sett yrðu skilti á þessum stað til að minna rækilega á bannið við að leggja bílum.